Um okkur

Mýranaut ehf. var stofnað árið 2007 af bændunum Gunnu og Bjössa á Leirulæk auk systurdóttur Gunnu, Hönnu kennara og manni hennar Anders Larsen landbúnaðarvélvirkja. Tilgangur félagsins er að rækta úrvals nautgripi til kjötframleiðslu og selja gæðakjöt beint til neytenda.

Gripirnir eru aðallega holdanautgripir af blönduðu kyni sem eru ætlaðir fyrir kjötframleiðslu en einnig elur Mýranaut upp naut af íslensku mjólkurkúakyni. Mýranaut er meðlimur í samtökunum Beint frá býli. Meginmarkmið þeirra samtaka er að tryggja neytendum gæðavörur, þar sem öryggi og rekjanleiki vöru er í fyrirrúmi. Mýranaut selur sínar vörur undir gæðamerki Beint frá býli.

Á Leirulæk eru um 100 kýr og kvígur sem eru úti allt árið. Kálfarnir fá að vera hjá kúnni í 8-9 mánuði áður en þeir eru teknir inn. Það er mikilvægt að kálfarnir fái mjólk eins lengi og hægt er. Þess vegna reynum við að setja aðkeypta kálfa undir kýrnar því þær geta auðveldlega mjólkað tveimur kálfum.

Þegar nautin koma inn þá fá þeir ótakmarkaðan aðgang að heyi. Nautgripirnir fá einnig heimaræktað bygg síðustu þrjá mánuðina fyrir slátrun.